Innlent

Íslensk-indversk lyfjasamvinna

Íslenska lyfjafyrirtækið Invent Farma ehf. hefur í samvinnu við indverska lyfjaframleiðandann Strides Arcolab Ltd. stofnað tvö ný samstarfsfyrirtæki. Annars vegar Domac Laboratories sem mun leggja áherslu á að þróa og selja lyf til sjúkrastofnana á Spáni og í Portúgal, og hins vegar eignarhaldsfélagið Plus Farma á Íslandi sem nýlega festi kaup á lyfjafyrirtækinu Farma Plus í Osló í Noregi. Farma Plus er vaxandi aðili í sölu á lyfjum til sjúkrahúsa á Norðurlöndum.

Með kaupunum telja eigendurnir að mikilvægt tækifæri skapist til að ná sterkri stöðu á lyfjamarkaði fyrir sjúkrahús í Skandinavíu.

Invent Farma er í eigu íslenskra og spænskra fjárfesta og framleiðir lyf í Barcelona á Spáni Um 300 manns starfa hjá fyrirtækinu sem þróar, framleiðir og markaðssetur virk lyfjaefni og fullbúin samheitalyf. Félagið á í dag yfir 70 framleiðslueinkaleyfi og selur framleiðslu sína um allan heim. Þá er Invent Farma meirihlutaeigandi í Lyfjaveri ehf.

Strides Arcolab Ltd. er einn af fimm stærstu framleiðendum í heiminum á mjúkum hylkjum til lyfjagerðar. Fyrirtækið rekur 14 lyfjaverksmiðjur í Bandaríkjunum, Brasilíu, Mexíkó, Ítalíu, Póllandi, Singapore og á Indlandi og er með skráð lyf í 37 löndum víðsvegar um heiminn. Um 1700 manns starfa hjá Strides á heimsvísu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×