Innlent

Mótmæla uppbyggingu Kjalvegar

Kjalvegur. Bláfellsháls og Kerlingafjöll.
Kjalvegur. Bláfellsháls og Kerlingafjöll. MYND/GVA

Ferðaklúbburinn 4x4 mótmælir áformum Norðurvegs ehf. um uppbyggingu Kjalvegar. Í tilkyningu frá klúbbnum er bent á að uppbyggður og malbikaður Kjalvegur geti verið afar varasamur vegna veðurfarsaðstæðna.

Stjórn Ferðafélags Íslands leggst einnig alfarið gegn hugmyndum um umræddan veg. Í ályktun frá félaginu segir að framkvæmdin muni stórspilla óbyggðum hálendisins.

Til viðmiðunar er bent á reynslu af Kvíslaveituvegi og syðsta hluta Sprengisandsvegar sem svipi til aðstæðna á Kjalvegi. Á hluta þeirra vega er algengt að sé flughált auk þess sem vindhæð magnist og stormur og rok verði meira ríkjandi. "Því getur Kjalvegur sem samgönguleið verið mjög varasamur að vetrarlagi."

Áform Norðurvegs ehf. eru að bæta aðgengi að hálendinu fyrir almenning með einkaframkvæmd og stytta þannig leiðina milli Norður- og Suðurlands um 50-100 km. Kostnaður er áætlaður um 4.2 milljarðar króna og veggjald verður tvö þúsund krónur á ferð fyrir fólksbíl, en átta þúsund fyrir þungaflutninga. Þannig geti framkvæmdin borgað sig upp á 16-18 árum.

Í skoðanakönnun á vefsíðu Ferðaklúbbsins 4x4 voru 86 prósent ósáttir við uppbyggða hálendisvegi með veggjöldum. Ferðaklúbburinn bendir á að Kjalvegur er fær fólksbílum að sumarlagi. Stytting vegarins milli norðurlands og þéttbýlis á Suðurlandi megi fá með lagfæringum á Þjóðvegi 1.

Þá mótmælir Ferðaklúbburinn sjón- og hávaðamengun sem framkvæmdirnar hafa í för með sér. Vegur af þessari gerð svipti hálendið sérkennum og öræfamenningu sem ferðamenn sækjast eftir. "Kjölur verður aldrei samur eftir að slík framkvæmd hefur verið heimiluð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×