Innlent

Svangir og hræddir

Þeir eru svangir og hræddir, sjómennirnir um borð í flutningaskipinu Castor Star. Eini kosturinn síðustu þrjár vikurnar hefur verið hveiti, kál, núðlur og örfá egg.

Skipið siglir undir fána Panama, er í eigu grísks útgerðarmanns og í áhöfn 19 Úkraínumenn og 1 Georgíumaður. Það var í gær sem eftirlitsmaður Sjómannafélags Íslands kom um borð í skipið þar sem það liggur við Grundartangahöfn og í hádeginu í dag var uppskipun hætt.

Fréttamanni Stöðvar 2 og myndatökumanni var ekki helypt inn á hafnarsvæðið síðdegis í dag, en Birgir Hólm, framkvæmdastjóri Sjómannafélags Íslands kom að máli við okkur. Hann sagði áhöfn ekki hafa fengið greidd laun síðan í september og mat um borð af skornum skammti.

Birgir segir að í gær þegar eftirlitsmaður félagsins hafi farið um borð hafi skipverjar þegar kvartað og talað um matarskort. Hann hafi þá skoðað matvælageymsluna og fundið 1 hveitisekk, 3 kálhausa, núðlusekk og nokkur egg. Annað hafi ekki verið að finna þar.

Útgerðarmaður skipsins mun væntanlegur hingað til lands í nótt. Birgir segir útgerðarmenn skipsins glæpamenn og skipverja hrædda um að missa vinnuna og lenda á svörtum lista sem torveldi þeim að fá vinnu við hæfi í heimalandinu.

Þrátt fyrir þetta glöddust þeir þegar Birgir kom úr bakaríi með vínarbrauð, kleinur og kókómjólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×