Viðskipti innlent

Hagnaður Vinnslustöðvarinnar dregst saman

Úr Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum.
Úr Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Mynd/Hari

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum skilaði 335 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 442 milljónir króna árið áður. Hagnaður fyrirtækisins dróst því saman sem nemur 107 milljónum króna. Þar af nam hagnaðurinn 248 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2006.

Heildartekjur Vinnslustöðvarinnar námu rétt rúmum 5,8 milljörðum króna á árinu en það er tæplega 1,4 milljörðum meira en árið á undan. Þar af jukust tekjur af fiskvinnslu um 47,1% en tekjur útgerðar jukust um 25,5%. Rekstrargjöld jukust um 13,7%, að því er fram kemur í uppgjöri Vinnslustöðvarinnar.

Eigið fé lækkaði frá áramótum um 80 milljónir króna. Lækkun eigin fjár stafar fyrst og fremst af útgreiðslu arðs sem nam 445 milljónum króna. Á móti hækkaði eigið fé um hagnað ársins að upphæð 335 milljónir króna og 31 milljón króna vegna mismunar á kaupum og úthlutun eigin bréfa til hluthafa.

Þá námu afskriftir 344 milljónum króna í fyrra sem er 16 milljónum króna minna en árið 2005.

Niðurstaða fjármagnsliða var neikvæð um 889 milljónir króna. Gengistap nam 796 milljónum króna sem er viðsnúningur frá 280 milljóna króna gengishagnaði árið 2005.

Í ársuppgjöri Vinnslustöðvarinnar kemur fram að reksturinn hafi gengið vel á haustmánuðum. Muni mestu um að stutt var að sækja síldarafla félagsins og var verulegur hluti aflans unninn til bræðslu sökum erfiðra stöðu á mörkuðum fyrir síldarafurðir til manneldis.

Í uppgjörinu kemur fram að rekstrarhorfur á yfirstandandi rekstrarári séu góðar og að óbreyttu sé líklegt að tekjur og afkoma verði með svipuðum hætti og í fyrra ef gengissveiflur krónunnar eru undanskildar.

Uppgjör Vinnslustöðvarinnar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×