Erlent

Hefur ekkert með morðið á Litvinenko að gera

Valdimir Pútín Rússlandsforseti þvertekur fyrir að Rússar noti olíu- og gaslindir sínar til að kúga önnur ríki. Hann segir ennfremur af og frá að rússnesk stjórnvöld hafi staðið á bak við morðið á njósnaranum Alexander Litvinenko.

Yfir tólf hundruð blaðamenn sóttu árlegan fréttamannafund Vladimirs Pútín í Kreml í morgun enda sjaldgæft að svo gott tækifæri bjóðist til að spyrja þennan umdeilda stjórnmálamann spjörunum úr. Pútín kom víða við í máli sínu, meðal annars lýsti hann þeirri skoðun sinni að Rússland stefndi hraðbyri í að verða eitt öflugasta hagkerfi heims. Rússar hafa átt í deilum við nágrannaríki sín, Úkraínu og Hvíta-Rússland, um verð á olíu og gasi og hafa Rússar á stundum gripið til þess ráðs að stöðva flutninga á eldsneyti til þeirra. Pútín vísaði því á bug í dag að það væri gert í pólitísku skyni.

Pútín lýsti því næst andúð sinni á áformum Bandaríkjamanna um að setja upp eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu. Um örlög njósnarans Alexander Litvinenko, sem stjórnvöld í Kreml eru sökuð um að hafa látið myrða, hafði svo hann það að segja að Litvinenko hefði ekki vitað um nein leyndarmál og því hefðu stjórnvöld í Kreml engan hag haft af morði hans.

Sitthvað annað vakti athygli í máli Pútíns, meðal annars sagði hann samkynheigða lýðfræðilegt vandamál í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×