Handbolti

Þjálfari Frakka er ekki bjartsýnn

Claude Onesta hefur ekki náð að laða fram það besta í franska landsliðinu á HM í Þýskalandi.
Claude Onesta hefur ekki náð að laða fram það besta í franska landsliðinu á HM í Þýskalandi. MYND/Getty

Claude Onesta, þjálfari franska landsliðsins í handbolta, er ekki bjartsýnn fyrir viðureign sinna manna gegn Króötum í 8-liða úrslitum Heimsmeistarakeppninnar á morgun. Onesta segir Króata með sigurstranglegasta liðið í Þýskalandi þar sem þeir séu eina taplausa liðið til þessa. Þjálfari Króata segir öll lið eiga jafna möguleika á sigri.

"Ef ég yrði að skjóta á sigurvegara þá myndi ég segja Króatía. Það er eina liðið sem hefur ekki tapað leik," sagði Onesta í dag. Lino Cervar, þjálfari Króata, segir hins vegar að Frakkar séu með mjög gott lið. "Ég held samt að öll lið eigi jafna möguleika á að standa uppi sem sigurvegarar í þessari keppni," segir Cervar.

Ljóst er að töp gegn Íslendingum og Þjóðverjum í milliriðlinum hafa haft áhrif á sjálfstraust Frakka og spilaði liðið langt undir getu gegn Túnisum í gær. Frakkar mörðu þó sigur á endanum, 28-26.

"Ég vill helst ekki hugsa of mikið um frammistöðu okkar í þeim leik því við flestir leikmennirnir voru þegar komnir með hugann við leikinn gegn Króatíu," sagði Jerome Fernandez, leikmaður Frakka.

Leikur Spánverja og gestgjafa Þjóðverja verður ekki síður spennandi en Juan Carlos Pastor, þjálfari spænska liðsins, telur að heimamenn séu líklegri. "Þeir eru á heimavelli og hafa unnið fjóra leiki í röð. Mótið er galopið og úrslitin í þeim leikjum sem eftir eru ráðast af dagsformi og vilja leikmanna. Hins vegar gæti ég vel ímyndað mér að Þýskaland og Króatía mætist í úrslitaleiknum," sagði Pastor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×