Erlent

Allt stefnir í verkfall hjá British Airways

Allt útlit er fyrir að tveggja daga verkfall starfsmanna breska flugfélagsins British Airways hefjist á morgun. Flugfélagið hefur þegar aflýst 1.300 flugferðum, þar á meðal til og frá Íslandi.

Reynt hefur verið til þrautar alla helgina að ná samkomulagi í þessari illvígu vinnudeilu British Airways við flugþjóna og flugfreyjur sínar. Gert ráð fyrir að deilendur hittist síðar í dag og freisti þess enn einu sinni að ná sáttum. Takist það ekki hefst verkfallið á miðnætti og nánast allt flug British Airways leggst af í tvo sólarhringa.

Deilan snýst einkum um veikindadaga en stjórnendur fyrirtækisins ákváðu fyrir skömmu að takmarka rétt starfsmanna til töku veikindafría þar sem veikindi starfsmannanna þóttu að þeirra mati orðin óeðlilega tíð. Enda þótt samningafundum sé ekki lokið hefur flugfélagið látið boð út ganga til um 140.000 farþega sinna sem eiga pantað far með því næstu tvo daga og tjáð þeim að öllum flugferðum þess til og frá Heathrow-flugvelli og innanlands og Evrópuflugi frá Gatwick væri aflýst, þar á meðal ferðum til og frá Íslandi. Náist ekki samkomulag í deilunni eru frekari verkföll boðuð fimmta til sjötta og tólfta til fjórtánda febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×