Handbolti

Íslenska liðið sagt óskamótherjinn

Ulrik Wilbek, danski landsliðsþjálfarinn, er hæstánægður með að fá Íslendinga í næsta leik
Ulrik Wilbek, danski landsliðsþjálfarinn, er hæstánægður með að fá Íslendinga í næsta leik MYND/Scanpix

Ulrik Wibek, þjálfari danska landsliðsins, segir Íslendinga mjög spennandi andstæðinga en ljóst varð í gær að liðin mætast í átta liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar í handknattleik. Þá er haft eftir Lasse Boesen, einum leikmanna danska liðsins, í Jótlandspóstinum að Íslendingar hafi verið óskamótherjinn í átta liða úrslitum og hann viðurkennir að Danir eigi nú góða möguleika á að ná í undanúrslitin og jafnvel lengra.

Danskir miðlar taka undir með honum og segja að Dönum hafi tekist með sigri á Tékkum í gær að forðast alla erfiðustu andstæðingana í átta liða úrslitum, eins og Frakkland, Þýskaland og Króastíu. Í Jótlandspóstinum segir að Danir mæti á morgun liði í Hamborg sem það þekki út og inn og það komi Dönum vel því Ulrik Wibek þjálfara hafi gengið best að skipuleggja leik danska liðsins gegn slíkum liðum. Danir hafi hins vegar ætlað að hvíla lykilmenn í leiknum gegn Tékkum en það hafi ekki verið möguleiki vegna úrslita í öðrum leikjum í gær.

Í Berglingske Tidende er bent á að það brjótist út norrænt stríð á morgun þegar Danir og Íslendingar eigist við en þess má geta að þegar liðin mættust í æfingaleik skömmu fyrir heimsmeistaramótið skildu þau jöfn þannig að allt útlit er fyrir spennandi leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×