Viðskipti innlent

Stýrivaxtahækkanir á enda?

Seðlabanki Íslands mun á fimmtudag í næstu viku ákveða hvort breytingar verði gerðar á stýrivaxtastigi bankans. Stýrivextir standa nú í 14,25 prósentum. Greiningardeild Glitnis segir yfirgnæfandi líkur á því að bankinn ákveði að halda vöxtunum óbreyttum.

Deildin bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að Seðlabankinn hafi hækkað vexti um fjórðung úr prósenti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans 21. desember í fyrra. Hafi hann á sama tíma sagt að ekki yrði slakað á aðhaldinu fyrr en verðbólguhorfur til langs tíma samrýmdust verbólgumarkmiði bankans. Bankinn gaf ekki skyn hvort vænta mætti frekari vaxtahækkana ólíkt því sem hann sagði fyrir fyrri vaxtahækkanir. Sé það mat greiningardeildar Glitnis að það væri eitt af því sem benti til að vaxtahækkunarferill bankans væri á enda kominn.

Greiningardeildin segir verðbólgu hafa hjaðnað og gengi krónunnar hækkað. Aðhaldsstig peningastefnunnar hafi aukist á tímabilinu þar sem raunstýrivextir hafi hækkað en að staðan á vinnumarkaði sé nánast óbreytt . Margt bendi sömuleiðis til að eftirspurn í hagkerfinu standi í stað eða dragist aðeins saman. „Allt þetta ætti að hvetja bankann til að staldra við með vexti sína í 14,25 prósentum," segir greiningardeildin og bætir við að hann spái því að bankinn haldi stýrivöxtunum óbreyttum fram í maí og hefði þá að lækka vextina nokkuð hratt. Verði þeir komnir í 11,5 prósent í lok ársins, að sögn greiningardeildar Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×