Handbolti

Hreiðar kemur inn í hópinn fyrir Roland

Íslenskir áhorfendur í Halle hafa þegar komið sér fyrir og eru að þjálfa raddböndin fyrir átök dagsins.
Íslenskir áhorfendur í Halle hafa þegar komið sér fyrir og eru að þjálfa raddböndin fyrir átök dagsins. MYND/Pjetur

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari gerir eina breytingu á leikmannahópi íslenska landsliðsins í handbolta fyrir leikinn gegn Þjóðverjum á HM í dag. Markvörðurinn Hreiðar Guðmundsson kemur inn í hópinn í stað Roland Vals Eradze, sem hvílir að þessu sinni. Búist er við því að Alfreð geri talsverðar breytingar á byrjunarliði sínu.

Alfreð sagði við Vísi í gærkvöldi að hann gerði ráð fyrir að byrja leikinn með leikmenn sem hafa fengið minna að spreyta sig það sem af er móti. Ísland er öruggt í 8-liða úrslitin og skiptir leikurinn þar með minna máli en ella. Búast má við því að leikmenn á borð við Arnór Atlason, Markús Mána Michaelsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Vignir Svavarsson fái að spila talsvert í dag.

Sigfús Sigurðsson, Logi Geirsson og Guðjón Valur Sigurðsson, Alexander Petersson og Ólafur Stefánsson eiga allir við smávægileg meiðsli að stríða og búast má við því að Alfreð reyni að hvíla þá eftir fremsta megni.

Þó að rétt um klukkustund sé í að leikur Íslendinga og Þjóðverja hefjist er keppnishöllin í Halle orðin nánast kjaftfull og mikil stemning. Íslenskir áhorfendur eru í miklum minnihluta, en talið er að þeir séu um 300 talsins. Á móti þeim eru tæplega 12 þúsund trylltir þýskir áhorfendur sem munu koma til með að láta vel í sér heyra allan leikinn. Löngu uppselt er á leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×