Erlent

Spangir auka ekki vellíðan

Ekki er vitað hvort að Beckham hafi notað spangir til þess að fá sitt glæsilega bros.
Ekki er vitað hvort að Beckham hafi notað spangir til þess að fá sitt glæsilega bros. MYND/AP

Að setja spangir í börn til þess að rétta tennur þeirra bætir ekki vellíðan eða lífsgæði síðar á ævinni. Þetta kom fram í nýrri breskri rannsókn sem kom út í byrjun janúar.

Rannsóknarmennirnir voru að athuga hvort að sú útbreidda trú fólks að tannréttingar bæti sjálfsímynd og vellíðan ætti við eitthvað að styðjast. Til þess rannsökuðu þau líðan rúmlega eitt þúsund velskra barna frá tíu ára aldri til þrítugs á árunum 1981 til 2003.

Þeir sem fengu spangir voru með betri tennur og voru ánægðari með þær en þeir sem fengu ekki spangir. Sú líðan hafði þó ekki áhrif á sjálfsímynd þeirra eða vellíðan samanborið við þá sem engar spangir fengu.

Iain Hathorn, formaður breska Tannlæknafélagsins, sagði að rannsóknin gæfi tannlæknum betri innsýn í tannréttingar og áhrif þeirra á sjúklinga sína. Hathorn bætti þó við að í dag hugsaði fólk öðruvísi en á þeim tíma sem rannsóknin var gerð. Viðhorf til útlits og tæknin sem felst í tannaðgerðum hafi breyst. Hathorn vildi því meina að ef að rannsóknin yrði framkvæmd í dag hefðu niðurstöðurnar ef til vill orðið á annan veg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×