Erlent

Hætti að reykja eftir heilablóðfall

Svo virðist sem vægar heilaskemmdir geti drepið löngun í sígarettur. Um er að ræða svæði í heilanum á stærð við tíukrónupening. Læknar í Bandaríkjunum þróa nú lyf sem getur haft áhrif á þennan hluta mannsheilans.

Reykingamenn eiga oftast í erfiðleikum með að slökkva í sígarettunni í síðasta sinn. Þeir reyna ítrekað að hætta og oft án árangurs.

Eitthvað reyndist bandarískum sjúklingi sem gengur undir nafninu Nathan auðveldara að hætta að reykja. Heilablóðfall er skýringin. Tiltekið svæði heilans - svokölluð eyja eða insula - skaddaðist hjá honum. Nathan hafði verið stórreykingamaður áður en langaði ekki í sígarettu þegar hann vaknaði á sjúkrahúsinu. Löngunin í nikótín var horfin og hann hafði gleymt fíkninni í það. Það hafði ekki verið meðvituð ákvörðun hjá honum að hætta og fyrir heilablóðfallið hafi það ekki hvarflað að honum..

Þetta varð til þess að læknar mannsins könnuðu áhrif samskonar heilaskemmda hjá sextán öðrum sjúklingum sem reyktu og kom í ljós að þeir höfðu allir hætt að reykja án vandkvæða og gefið sömu skýringu. Antoine Bechara, læknir Nathans, lýsir þessu þannig að það sé eins og rofa sé smellt og þá slökkni löngunin í sígarettur.

Sérfræðingar sem rannskaða hafa fínk telja að breytingar á heilastarfsemi á þessu svæði geti haft áhrif á annað en bara fíkn í nikótín. Þetta svæði heilans breyti líkamlegum viðbrögðum í tilfinningar - löngun í þetta og hitt þróist þar.

Hugmyndir eru uppi um að þróa lyf sem hafi áhrif á þennan hluta heilans - meðal annars til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Nokkuð er þó í að það komi á markað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×