Sport

Serena Williams sigraði á Opna ástralska

Serena Williams fagnar sigri sínum í Melbourne í nótt.
Serena Williams fagnar sigri sínum í Melbourne í nótt. MYND/AFP

Serena Williams bar sigur úr býtum á Opna ástralska meistaramótinu í Tennis með því að leggja Mariu Sharapovu af velli á sannfærandi hátt í úrslitaviðureign mótsins í Melbourne í nótt. Williams sigraði í tveimur lotum, 6-1 og 6-2, en flestir höfðu spáð Sharapovu sigrinum.

Viðureignin stóð yfir í aðeins 62 mínútur og má segja að hin bandaríska Williams, sem eitt sinn var langbesti tennisspilari heims en hefur átt í erfiðleikum á undanförnum árum, hafi á köflum hreinlega leikið sér að stöllu sinni frá Rússlandi. Fyrir mótið var Williams í 81. sæti heimslistans en búast má við því að hún taki stórt stökk upp listann í kjölfarið á þessum sigri í nótt.

Þetta er í þriðja sinn sem Serena Williams sigrar á Opna ástralska meistaramótinu en hún sagði eftir mótið að sigurinn í ár væri líklega sá sætasti af þeim öllum. Hún tileinkaði systur sinni, Yetunde, sigurinn, en hún var skotinn til bana árið 2003.

"Það hafa margir gagnrýnt mig upp á síðkastið og sagt að ég væri búin að vera sem tennisspilari. Ég vona að ég hafi þaggað niður í því fólki í dag," sagði Williams eftir að sigurinn var í höfn.

Afrek Sharapovu að komast alla leið í úrslitaviðureignina er þó nóg til að tryggja henni efsta sætið á nýjum heimslista kvenna sem gerður verður opinber eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×