Körfubolti

Papaloukas leikmaður ársins í Evrópu

Theo Papaloukas
Theo Papaloukas AFP

Gríski leikstjórnandinn Theo Papaloukas hjá CSKA Moskvu var í dag kjörinn körfuboltamaður ársins í Evrópu nokkuð óvænt, en hann hafði þar með betur gegn besta manni heimsmeistaramótsins Pau Gasol og hinum frábæra Dirk Nowitzki, sem er einhver besti körfuboltamaður heimsins.

Papalaoukas átti frábært ár með bæði CSKA Moskvu og gríska landsliðinu. Grikkir urðu í öðru sæti á HM á síðasta ári, en þar spilaði hann stórt hlutverk líkt og árið áður þegar hann stýrði liði Grikkja til sigurs á Evrópumótinu.

Ekki var hann síðri hjá liði Moskvu, en þar leiddi hann liðið til sigurs í bikarkeppninni í Rússlandi og sigurs bæði í Euroleague og Superleague. Papaloukas varð efstur í kjöri bæði áhugamanna og sérfræðinga í valinu að þessu sinni, en þó var mjög mjótt á mununum milli hans og framherjanna Gasol (Spáni og Memphis Grizzlies) og Nowitzki (Þýskalandi og Dallas Mavericks), sem báðir áttu frábær ár með lands- og félagsliðum sínum.

Jorge Garbajosa, leikmaður Toronto og spænska landsliðsins varð í fjórða sæti í kjörinu, Juan Navarro hjá Spáni í fimmta, Boris Diaw hjá Frakklandi og Phoenix Suns í því sjötta, Vasileios Spanoulis í sjöunda og þá varð Tony Parker hjá San Antonio og Frakklandi í því áttunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×