Erlent

Köld eru kvenna ráð

Belgíska lögreglan rannsakar um þessar mundir reyfarakennt ástríðumorð sem framið var í þrettán þúsund feta hæð. Svo virðist sem kona hafi komið viðhaldi unnusta síns fyrir kattarnef með því að eyðileggja fallhlíf hennar.

Rúmir tveir mánuðir eru síðan hin þrjátíu og sjö ára gamla Els Van Doren stökk inn í eilífðina úr flugvél sem flaug með hana og fleiri fallhlífarstökkvara í fjögurra kílómetra hæð. En í stað þess að svífa hægt til jarðar eins og félagar hennar féll Van Doren þráðbeint ofan í húsagarð í þorpinu Obglabbeek og lést að vonum samstundis.

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að ekki hafði allt verið með felldu heldur hafði greinilega verið átt við aðal- og varafallhlífar konunnar svo þær opnuðust ekki á eðlilegan hátt. Á dögunum var svo kona handtekin sem var í sama fallhlífarklúbbi og Van Doren og segir lögregla líklegt að um ástríðumorð hafi verið að ræða.

Konan sem hneppt hefur verið í gæsluvarðhald er tuttugu og þriggja ára og upplýst hefur verið að hún hafi átt hollenskan unnusta sem Van Doren átti einnig vingott við. Hér virðist því sannast hið fornkveðna að köld séu kvennaráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×