Erlent

Útgöngubanni lýst yfir í Beirút

Kveikt var í bílum óeirðunum í Beirút í dag.
Kveikt var í bílum óeirðunum í Beirút í dag. MYND/AP

Á ráðstefnu sem haldin var um efnahag Líbanons í Frakklandi í dag tókst að safna rúmlega fimm hundruð milljörðum til endurreisnar landsins. Á meðan á þessu stóð kom til heiftarlegra átaka í Beirút, höfuðborg Líbanons, á milli fylgismanna og andstæðinga ríkisstjórnarinnar.

Parísarráðstefnuna sóttu ráðamenn fjörutíu ríkja sem leggja líbönskum stjórnvöldum fé til endurreisnar samfélagsins. Það var í rústum eftir borgarastyrjöldina á árunum 1975-1990 og þegar uppbygging þess var komin nokkuð á veg skall á stríð Hizbollah-samtakanna og Ísraela. Innviðir þjóðfélagsins voru sprengdir aftur um nokkra áratugi og heilu þorpin í suðurhluta landsins voru eyðilögð. Af þessum sökum eru skuldir Líbanons rúmlega 2.500 milljarðar króna, sem jafngildir tæplega tveggja ára þjóðarframleiðslu landsins. Á ráðstefnunni í dag lofuðu þátttökuríkin að leggja líbönsku stjórninni til liðlega fimm hundruð milljarða króna í formi lána og styrkja. Vonast er til að þar með dragi úr ólgunni í Líbanon en undanfarin misseri hafa Hizbollah-samtökin og bandamenn þeirra sótt mjög að ríkisstjórn Fuad Saniora.

Ákvarðanir Parísarfundarins virðast enn sem komið er hafa lítið að segja því í Beirút í dag kom enn eina ferðina til harkalegra átaka á milli stuðningsmanna og andstæðinga stjórnarinnar. Til skotbardaga kom við einn af háskólum borgarinnar og er talið að fjórir hafi beðið bana og 35 hafi særst. Ekki er vitað hverjir skutu á námsmennina en al-Manar-sjónvarpsstöðin, sem rekin er af Hizbollah-samtökunum, segir að vígamennirnir séu á mála hjá Saad Hariri, oddvita stjórnarflokkanna á líbanska þinginu. Kveikt var í bílum í óeirðunum og skemmdir unnar á verslunum og varð að kalla út herlið þar sem lögregla fékk ekki neitt við ráðið.

Nú síðdegis setti líbanski herinn útgöngubann í Beirút og verður það í gildi að minnsta kosti þangað til í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×