Erlent

Horfur í efnahagsmálum góðar

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, flutti ávarp á þinginu í dag.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, flutti ávarp á þinginu í dag. MYND/AP

Hagfræðingar eru bjartsýnir á að efnahagur heimsins verði með miklum ágætum á árinu 2007. Auk efnahagsmála eru umhverfismál í brennidepli á ársþingi Alþjóða efnahagsstofnunarinnar sem hófst í Davos í Sviss í morgun.

Alþjóða efnahagsráðið hefur engin formleg völd en áhrif stofnunarinnar eru hins vegar ómæld. Ársþing þess sem jafnan er haldið í Davos í Sviss sækja frammámenn á sviði stjórnmála, viðskipta og fjölmiðlunar alls staðar úr heiminum og á seinni árum hafa stjörnur á borð við Bono og Peter Gabriel einnig látið til sín taka. Búist er við að umhverfismál verði þar efst á baugi næstu fimm daga en einnig ætla fundarmenn að skeggræða mögulegar lausnir á ófriðnum í Mið-Austurlöndum, svo og orkugjafa sem leyst geta olíuna af hólmi. Í dag lýstu hagfræðingar á þinginu því yfir að horfur í efnahagsmálum væru almennt góðar í heiminum, uppgangur í Evrópu og Asíu vegur upp á móti væntanlegri niðursveiflu í Bandaríkjunum. Veikir fasteignamarkaðir í Bandaríkjunum, hækkandi olíuverð og háir vextir valda þeim aftur á móti áhyggjum.

Á sama tíma en talsvert sunnar á hnettinum, í Kenía nánar tiltekið, fer fram ársþing Alþjóða félagsmálaráðsins en þingið er haldið af andstæðingum hnattvæðingar. Þeir segja að Davos-ráðstefnan sé háð á forsendum Vesturlanda og miði að því að veikja þróunarlöndin enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×