Erlent

Norður-Kórea og Íran í samstarf

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er kominn í samstarf með með Norður-Kóreu til þess að flýta kjarnorkuáætlun lands síns.
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er kominn í samstarf með með Norður-Kóreu til þess að flýta kjarnorkuáætlun lands síns. MYND/AP

Norður-Kórea er að hjálpa Írönum að undirbúa neðanjarðarsprengingu á kjarnorkuvopnum, svipaðri þeirri og Norður-Kóreumenn framkvæmdu sjálfir á síðasta ári. Þetta kemur fram á vefsíðu breska dagblaðsins Telegraph í dag.

Samkvæmt samningum sem löndin tvö hafa gert sín á milli hafa Norður-Kóreumenn samþykkt að deila öllum upplýsingum um prófanir sínar með vísindamönnum Írana. Það á að hjálpa írönsku vísindamönnum að flýta kjarnorkuáætlun Írana svo mikið að þeir geti sprengt tilraunasprengju fyrir lok þessa árs.

Háttsettur evrópskur varnarmálasérfræðingur sagði frá þessu. Hann skýrði einnig frá því að óstaðfestar fregnir hermdu að hópur íranskra vísindamanna hefði verið viðstaddur tilraunasprengingu Norður-Kóreumanna. Hann staðfesti einnig að háttsettir vísindamenn ferðuðust nú oftar á milli landanna tveggja og að aukin starfsemi væri í kjarnorkuverum Írana það sem af væri ári.

Samkvæmt fregnum voru það lítil viðbrögð alþjóðasamfélagsins við tilraunasprengingum Norður-Kóreumanna sem urðu til þess að Íranar ákváðu að hraða áætlunum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×