Viðskipti innlent

Útlán bankanna tóku kipp undir lok árs

Útlán íslensku bankanna námu rúmum 3.808 milljörðum króna á síðasta ári, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands. Lánin stóðu nokkuð í stað frá vordögum liðins ár en hafa vaxið hratt á síðustu mánuðum liðins árs.

Greiningardeild Glitnis bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að erlend útlán hafi vaxið hraðar en þau innlendu þegar nær dró áramótum.

Hlutur innlendra útlána og markaðsverðbréfa nam 2.524 milljörðum króna en erlend útlán og markaðsverðbréf 1.284 milljörðum króna. Erlend útlán jukust um 77 prósent milli ára innlend útlán um 32 prósent á sama tíma, að sögn greiningardeildarinnar.

Greiningardeildin segir heildarskuldir heimilanna við bankakerfið hafi numið 708 milljörðum króna í lok síðasta árs en það er 30 prósenta aukning á milli ára. Deildin bendir hins vegar á að á fyrstu mánuðum síðasta árs hafi heimilin verið í óða önn að skuldbreyta húsnæðislánum sínum, sem jók hlutdeild bankanna í þeim. Að sama skapi minnkaði hlutur Íbúðalánasjóðs.

Þá á verðtryggingin talsverðan hlut að máli en verðbólga var um 7 prósent í fyrra.

Skuldir innlendra fyrirtækja við íslenskt bankakerfi námu 1.705 milljörðum króna í fyrra en það er 43 prósenta aukning á milli ára. „Við þetta bætist svo væntanlega að á liðnu ári var mikið um skuldabréfaútgáfur fyrirtækja. Ríflega 60 prósent þessara skulda eru gengistryggðar og endurspeglar það að mestu leyti útrás stærri fyrirtækjanna og þá staðreynd að æ stærri hluti tekna þeirra og eigna er í erlendum gjaldmiðlum," segir greiningardeild Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×