Erlent

Óeirðir í Líbanon

Beirút í morgun.
Beirút í morgun. MYND/AP
Mörg þúsund Líbanar hafa lamað nær alla Beirút og lokað af hluta hennar. Stjórnarandstæðingar hafa lagt niður vinnu víða um Líbanon og ætla sér að steypa ríkisstjórn landsins með góðu eða illu.

Þykkur reykur liggur yfir höfuðborginni þar sem mótmælendur hafa brennt hjólbarða og annað lauslegt um leið og þeir hafa lokað hluta borgarinnar af. Ekki er flogið til eða frá borginni og hafa mótmælendur lokað öllum leiðum að flugvellinum.

Hizbollah-liðar lögðu hart að stuðningsmönnum sínum að leggja niður vinnu til að leggja áherslu á kröfu þeirra um að sitjandi stjórn Fouad Saniora, forsætisráðherra, víki og boðað verði til kosninga. Stjórnarliðar, sem andstæðingar segja halla undir vesturveldin, svara Hizbollah-liðum fullum hálsi og segja þetta ekkert annað en tilraun til valdaráns.

Hizbollah-samtökin í Líbanon hafa barist gegn sitjandi stjórn frá því í desember. Liðsmenn samtakanna vilja komast í stjórn og í þá stöðu að geta beitt neitunarvaldi. Hizbollah-liðar njóta stuðnings Írana og Sýrlendinga auk þess sem drúsar og kristnir menn teljast til stjórnarandstæðinga í Líbanon.

Átökin hafa blossað upp vegna mótmælanna í nótt og í morgun og hafa þau þegar kostað einn mann lífið auk þess sem fjórir hafa særst.

Mótmælin og verkfallið koma á mjög viðkvæmum tíma fyrir ráðamenn í Líbanon þar sem ráðstefna hefst í dag í París þar sem fulltrúar erlendra ríkja og alþjóðasamtaka ræða hvernig koma megi líbönsku þjóðinni til hjálpar eftir blóðu átök við Ísraela í fyrrasumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×