Viðskipti innlent

Ekki búist við lægri lánshæfiseinkunn

Greiningardeild Glitnis býst ekki við að lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings muni lækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Í febrúar verður ár liðið frá því Fitch gaf ríkissjóði neikvæða lánshæfiseinkunn og býst Glitnir við að Fitch muni bíða og sjá til hverju framvindur.

Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu í dag að í árlegri skýrslu Fitch í nóvember í fyrra um íslenskt efnahagslíf komi fram að bankarnir hafi endurskoðað útrás sína og tryggt langtímafjármögnun. Með því hafi dregið verulega úr skammtímaáhættu. Fitch hafi hins vegar bent á að enn sé ójafnvægi í hagkerfinu og geti tekið langan tíma að vinda ofan af því. Glitnir segir hagspár hins vegar benda sterklega til að úr ójafnvægi hagkerfisins dagi hratt á næstunni.

Því muni Fitch bíða allt upp í tvö ár og sjá hvort spár rætist, að mati Greiningardeildar Glitnis sem bendir á að vel geti farið að matsfyrirtækið breyti horfunum í stöðugar. Máli skipti, hvernig hagstjórnin taki á málunum, að sögn Glitnis. „Seðlabankinn stendur hins vegar enn á bremsunni og síðasta vaxtahækkun bankans var augljóslega gott framlag til trúverðugleika peningastefnunnar," segir í Morgunkorni Glitnis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×