Innlent

Útlendingar kærkomin kæling

Það dró úr launaskriði í byggingariðnaði og verslun á síðasta ári, líklega vegna tilkomu útlendinga á íslenskan vinnumarkað, segir hagfræðingur hjá Greiningardeild Kaupþings. Hún segir útlendingana hafa slegið á verðbólgu og verið kærkomna kælingu fyrir atvinnulífið.

Um ellefu þúsund útlendingar bættust við íslenskan vinnumarkað á síðasta ári og voru þá samtals sautján þúsund útlendingar starfandi hér, eða um níu prósent af vinnuafli landsins. Laun hafa hækkað hér nokkuð jafnt og þétt á síðustu árum í flestum geirum atvinnulífsins.

Þó hefur dregið úr hækkunum á sumum sviðum. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð höfðu þau á fyrsta ársfjórðungi í fyrra hækkað um 71% frá árinu 2000 og 62% í verslun og viðgerðaþjónustu. Ólíkt öðrum geirum sem héldu áfram að hækka dró úr launaskriði í byggingariðnaði og verslun þegar líða tók á árið. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru vísbendingar um að laun í byggingariðnaði hafi lækkað um sex prósentustig fram að þriðja ársfjórðungi 2006 og þrjú prósentustig í verslun og viðgerðaþjónustu.

Þóra Helgadóttir, hagfræðingur hjá Kaupþingi segir mjög líklegt að fjölgun útlendinga í þessum störfum hafi dregið úr launaskriði. En í þessum uppgangi hafi erlent vinnuafl haft dempandi áhrif á þenslu í hagkerfinu og líklega leitt til minni verðbólgu en ella, hugsanlega upp á 1-1,5%

Þjóðin hagnast á erlendu vinnuafli segir Þóra, enda flestir sem hingað koma á vinnufærum aldri og skili því meira til ríkisins en þær fá til baka. Þeir sem helst nýti sér velferðarkerfið er yngra fólk gegnum skólakerfið og eldra fólk sem er hætt að vinna, útlendingar eru hlutfallslega færri í þessum hópum.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×