Erlent

Batahorfur ekki sagðar vera góðar

Fídel Kastró, leiðtogi Kúbu, er veikari en nokkru sinni fyrr eftir þrjár misheppnaðar skurðaðgerðir. Spænskt dagblað fullyrðir þetta í dag.

Kastró, sem er áttræður, hefur ekki haldið um stjórnartaumana á Kúbu síðan í ágúst í fyrra þegar hann setti þá í hendur Raúls bróður síns. Þá lagðist leiðtoginn inn á sjúkrahús og gekkst undir skurðaðgerðir vegna innvortis blæðinga og iðrakveisu. Hann hefur enn ekki snúð aftur til starfa.

Ráðamenn á Kúbu hafa keppst við að sannfæra landa leiðtogans og umheiminn um að hann sé á batavegi og sýnt ljósmyndir og myndbandsupptökur af því þegar hann hefur tekið á móti gestu á borð við Hugo Chavez, forseta Venesúela, og Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Leiðtoginn sjálfur hefur sagt það taka sig tíma að ná fyrri styrk og sú hefur orðið raunin. Fréttaskýrendur telja þó líklegast að Kastró komi ekki aftur til vinnu sökum heilsuleysis.

Það var svo í morgun að frétt spænska blaðsins El Pais renndi stoðum undir þær tilgátur. Þar segir að Kastró þjáist af alvarlegri þarmasýkingu. Vitnað er til heimildarmanna á sjúkrahúsi í Madríd. Virtur skurðlæknir mun hafa farið þaðan til Kúbu í desember til að kanna líðan Kastrós. Blaðið hefur eftir heimildarmanni að sýkingin sé alvarleg, þrjár skurðaðagerðir hafi misheppnast og alvarlegir fylgikvillar komið fram. Batahorfur séu því ekki góðar.

Yfirvöld á Kúbu hafa enn ekki tjáð sig um frétt spænska blaðasins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×