Körfubolti

Webber fer til Detroit

Þessi mynd var tekin fyrir nokkrum mínútum af Chris Webber ásamt föður sínum, Mayce, þegar þeir horfðu á leik Detroit og Minnesota sem nú fer fram í Detroit.
Þessi mynd var tekin fyrir nokkrum mínútum af Chris Webber ásamt föður sínum, Mayce, þegar þeir horfðu á leik Detroit og Minnesota sem nú fer fram í Detroit. MYND/Getty

Miðherjinn Chris Webber hefur staðfest að hann muni ganga til liðs við Detroit Pistons í NBA-deildinni en búist er við að gengið verði formlega frá félagsskiptum hans úr Philadelphia síðar í þessari viku. Mörg félög voru á höttunum á eftir Webber, sem er einn reyndasti miðherji deildarinnar.

Webber er uppalinn í Michican og er talið að nálægðin við fjölskyldu sína hafi átt einna stærstan þátt í ákvörðun leikmannsins, auk þess sem Detroit er af flestum talið lið sem er líklegt til afreka í NBA-deildinni. Webber hefur aldrei unnið NBA-titilinn og var ljóst að ef hann ætlaði að ná þeim áfanga áður en ferillinn er á enda þyrfti hann að semja við gott lið.

Detroit kaupir upp það sem eftir var af eins og hálfs árs samningi Webber við Philadelphia en samkvæmt honum fær leikmaðurinn litla 43 milljónir dollara í launagreiðslur.

"Með því að ganga til liðs við Detroit fæ ég tækifæri til að spila leikinn sem ég elska umkringdur af minni fjölskyldu. Ég gæti ekki hugsað mér það betra," sagði Webber í dag.

Flip Saunders, þjálfari Detroit, var hæstaánægður með að klófesta kappann og telur hann henta vel í leikstíl liðsins. "Strákarnir í liðinu eru spenntir, ég er spenntur og allir í Detroit eru spenntir yfir komu hans. Við hlökkum til að fá hann," sagði Saunders.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×