Fótbolti

Mourinho: Ekki lesa blöðin

Jose Mourinho er jafnvel á förum frá Chelsea í sumar.
Jose Mourinho er jafnvel á förum frá Chelsea í sumar. MYND/Getty

Jose Mourinho hefur hvatt stuðningsmenn Chelsea til að leiða hjá sér allar vangaveltur um framtíð sína hjá félaginu, en portúgalski stjórinn hefur ítrekað verið orðaður við brotthvarf úr stjórastólnum í vor. Mourinho vill enn ekki tjá sig efnislega um meint ósætti hans og stjórnar félagsins og segja spænsk dagblöð í morgun að umboðsmaður hans sé í viðræðum við Real Madrid.

Chelsea tekur á móti Wigan í ensku úrvalsdeildinni í dag og sagði Mourinho við opinbera heimasíðu félagsins að það væri mikilvægt að leikmenn og stuðningsmenn hættu að velta fyrir sér því sem stendur í dagblöðunum.

“Við verðum að sameinast til að ná sigri gegn Wigan og til að það gerist verðum við að gleyma þessum sögum í fjölmiðlunum. Ég á mjög auðvelt með að leiða þær framhjá mér og ég vona að það sama eigi við um ykkur,” sagði Mourinho við heimasíðuna en athygli vekur að hann vísar sögunum ekki á bug, sem jafnvel bendir til þess að sannleikskorn sé í þeim og jafnvel gott betur en það.

Spænskir fjölmiðlar sögðu frá því í morgun að Mourinho hefði skipað umboðsmanni sínum að hefja viðræður um stjórastöðuna hjá Real Madrid. Marca segir að Mourinho hafði ákveðið að yfirgefa Chelsea eftir tímabilið eftir að hafa lent í útistöðum við Roman Abramovich, eiganda félagsins. Fabio Capello þykir valtur í sessi eftir köflótt gengi Real að undanförnu og sögðu ýmis önnur blöð á Spáni að þegar hefði verið ákveðið að leysa Capello frá störfum í voru. Mourinho yrði þá hinn fullkomni eftirmaður.

Didier Drogba, leikmaður Chelsea, sagði við The Sun í morgun að leikmenn liðsins þráðu ekkert heitar en að Mourinho yrði áfram hjá liðinu. “Það verður einstaklega sárt fyrir okkur leikmennina ef hann fer. Það er alltaf erfitt að sjá á eftir góðum vinum. Vonandi verður hann áfram með okkur,” sagði Drogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×