Fótbolti

Beckham getur haft gríðarleg áhrif

Alexei Lalas bindur miklar vonir við komu Beckham til LA Galaxy.
Alexei Lalas bindur miklar vonir við komu Beckham til LA Galaxy. MYND/Getty

Koma David Beckham til LA Galaxy getur komið liðinu í hóp fremstu félagsliða veraldar, að því er Alexei Lalas, fyrrum landsliðsfyrirliði Bandaríkjanna og núverandi framkvæmdastjóri LA Galaxy, heldur fram.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um risasamning Beckham við LA Galaxy og hefur áherslan jafnan verið mest á ímyndar- og vörumerkis hluta samningsins en þeim mun minni á fótboltalegar forsendur hans. Beckham hefur sjálfur gert aumkunarverðar tilraunir til að réttlæta ákvörðun sína um að fara til Bandaríkjanna með því að segja hana hafa alls ekki snúist um peninga - og nú hefur Lalas bæst í hópinn.

“Við erum gríðarlega spenntir fyrir komu Beckham. Um er að ræða leikmann, alþjóðlegan stjörnu, sem hefur spilað með bestu liðum heims í mörg ár. Hann er ennþá á góðum aldri, á hátindi ferils síns og við erum sannfærðir um að koma hans getur komið LA Galaxy á nýjan stall í alþjóðlegu samhengi. Við vonumst til þess að Galaxy verði leiðandi félag á sínu sviði í heiminum á næstu árum,” sagði Lalas á blaðamannafundi í gær.

Spurður um hvort markaðslögmálin hefðu ekki átt neinn hlut að máli þegar ákveðið var að semja við Beckham, sagði Lalas að svo væri ekki. “Þegar við horfðum yfir lista af leikmönnum sem við gátum mögulega fengið þá stóð nafn Beckham upp úr. Við spurðum okkur: Mun hann geta hjálpað Galaxy til að vinna titla á komandi árum. Svarið var já og þess vegna fengum við hann,” sagði Lalas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×