Viðskipti innlent

Háskerpuútsendingar hefjast

Mun hærri upplausn Á þessari mynd sést hvernig sama mynd verður skýrari þegar hún birtist í háskerpugæðum. Upplausnin er um það bil fjórfalt meiri í háskerpuútsendingum en í hefðbundnum sjónvarpsútsendingum.
Mun hærri upplausn Á þessari mynd sést hvernig sama mynd verður skýrari þegar hún birtist í háskerpugæðum. Upplausnin er um það bil fjórfalt meiri í háskerpuútsendingum en í hefðbundnum sjónvarpsútsendingum.
Háskerpuútsendingar hefjast á dreifikerfi Digital Íslands á morgun. Þetta er í fyrsta skipti sem sjónvarpsefni í háskerpu er dreift á Íslandi. Fyrst um sinn verða tvær rásir í boði: Discovery HD sem sýnir náttúrulífs- og heimildarmyndir, og Sýn HD sem sýnir valda leiki úr ensku knattspyrnunni.

Sérstakan háskerpumyndlykil þarf til að taka á móti útsendingunum. Til að njóta tækninnar til fulls þarf sjónvarp sem ræður við háskerpuútsendingar, merkt „HD“ eða „HD Ready“.

Munurinn á venjulegu sjónvarpsefni og sjónvarpsefni í háskerpu er upplausnin, sem er um það bil fjórfalt hærri í háskerpuútsendingu. Það þýðir að myndin verður skýrari og smáatriði sjást betur en áður. Litir koma einnig betur út og hljóð er sent út í meiri gæðum.

Hrannar Pétursson, forstöðumaður almannatengsla hjá Vodafone, segir ekki ákveðið hversu margir leikir í enska boltanum verði sýndir í háskerpu, en það verði að minnsta kosti einn leikur um hverja helgi. Fyrsti leikurinn sem sýndur verður á Sýn HD er viðureign Everton og Liverpool á laugardaginn kemur.- sþs





Fleiri fréttir

Sjá meira


×