Körfubolti

Bandaríska körfuboltaliðið á leið til Peking

LeBron James og Kobe Bryant léku vel fyrir bandaríska liðið.
LeBron James og Kobe Bryant léku vel fyrir bandaríska liðið. Getty

Bandarísku NBA-stjörnurnar voru ekki í neinum vandræðum með að tryggja sér farseðil­inn á Ólympíuleikana í Peking sem fram fara næsta sumar. Bandaríkja­menn rúlluðu yfir Púertó Ríkó, 135-91, og tryggðu sér með því farseðilinn til Peking en þess má geta að Púertó Ríkó lagði Banda­ríkin á Ólympíuleikunum í Aþenu í eftirminnilegum leik.

„Ég veit ekki hvort við verðum mikið betri en þetta,“ sagði LeBron James en þetta var næsthæsta skor bandaríska liðsins síðan það byrjaði að spila með NBA-leikmenn árið 1992. „Við hittum svakalega vel, tókum góð fráköst og spiluðum hörkuvörn. Svona á lið að spila. Við höfum blessunar­lega spilað eins og lið alla þessa undankeppni.“

Carmelo Anthony var stigahæstur með 27 stig og Michael Redd kom næstur með 23. James var með 19 stig og Kobe Bryant kom þar á eftir með 15.

Það var ekki blásið til neinna veisluhalda í kjölfarið enda litu leikmenn á verkefnið sem skylduverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×