Erlent

Gen örvhentra líklega fundið

Bandaríski sjónvarpsmaðurinn Jay Leno er í hópi örvhentra.
Bandaríski sjónvarpsmaðurinn Jay Leno er í hópi örvhentra. MYND/getty
Vísindamenn hafa í fyrsta skipti uppgötvað gen sem virðist auka líkur á að fólk verði örvhent.

Genið LRRTM1 virðist gegna lykilhlutverki í að stjórna því hvaða hluti heilans stýrir starfsemi á borð við mál og tilfinningar samkvæmt rannsókninni. Hjá rétthentu fólki stjórnar vinstra heilahvelið yfirleitt máli og tungumálakunnáttu og hægra heilahvelið stjórnar til­finningum. Hjá örvhentu fólki er þessu hins vegar oft öfugt farið og vísindamennirnir telja að LRRTM1 sé orsökin. Þá telja þeir að genið geti aukið lítillega hættu á geðklofa sem talið er að tengist óeðlilegu jafnvægi í heilastarfsemi.

Vísindamenn frá Oxford-háskóla leiddu rannsóknarstarfið og birtust niðurstöðurnar í tímaritinu Mole­cular Psychiatry. Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

Í kringum tíu prósent fólks eru örvhent. Ýmsar rannsóknir benda til þess að munur sé á örvhentum og rétthentum. Samkvæmt ástralskri rannsókn sem birtist í fyrra geta örvhentir hugsað hraðar en rétthentir þegar þeir takast á við verkefni eins og að spila tölvuleik eða við íþróttir. Franskir vísindamenn fundu út að það að vera örvhentur geti verið kostur þegar til handalögmála kemur. Sumar rannsóknir benda til þess að örvhentir geti verið í meiri áhættu við að fá suma sjúkdóma og að lenda í slysum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×