Skoðun

Kæri Hannes!

Bestu þakkir fyrir bréfið sem gladdi mig ósegjanlega. Þar færir þú mér þau merku tíðindi, og sennilega ýmsum lesendum Bréfs til Maríu líka, að Henri Lepage sé góðvinur þinn.

Það gætir að vísu nokkurs misskilnings hjá þér, þegar þú segir að ég hneykslist á bók Henri Lepage, Á morgun, kapítalisminn, eða samkvæmt þinni túlkun á titlinum, Morgundagurinn er kapítalismans. Það er í rauninni þvert á móti. Mér fannst hún hin athyglisverðasta, því þar fékk ég á einum stað nákvæmt, greinargott og yfirgripsmikið yfirlit yfir kenningar frjálshyggjumanna. Þess vegna taldi ég ómaksins vert að verja tíma og rúmi í að fjalla um þessa bók.



Nú mun sá orðrómur vera kominn á kreik og hefur borist til mín í vindinum, að ég hafi dregið þarna fram einhvern þriðja flokks höfund, með öllu óþekktan, sem ekki sé eyðandi miklu púðri á; ég ráðist sem sé á garð frjálshyggjumanna þar sem hann sé lægstur, eða jafnvel skarð í honum. Þetta er alvarleg gagnrýni, ef hún skyldi hafa við rök að styðjast, og erfitt fyrir mig að svara henni, því óvíst að ég teldist trúverðugur ef ég ætlaði að taka upp hanskann fyrir Henri Lepage meira en orðið er.



En nú hefur þú tekið ómakið af mér og kippt öllum grundvelli undan þessum andmælum. Eins og almenningur veit átt þú það nefnilega sameiginlegt með ýmsum þeim höfuðspekingum sem láta ljós sitt skína á Signubökkum, að þú umgengst einungis stórmenni þessa heims. Ef Henri Lepage er góðvinur þinn, getur hann þess vegna ekki verið neinn hálfdrættingur í hugmyndafræðum frjálshyggjunnar, það hlýtur að vera fullt mark takandi á manni sem er í svo góðum félagsskap.



Þess vegna er það líka dálítið óréttlátt hjá þér, þegar þú segir í nokkrum álösunartón að ég safni saman undir heitinu „frjálshyggja" alls kyns hagstjórnarhugmyndum og þá væntanlega ólíkum. Þær hugmyndir sem ég fjalla um eru allar til staðar í riti Henri Lepage, hann hefur safnað þeim saman á undan mér.



Megir þú svo ávallt vaxa að manviti.

Höfundur er sagnfræðingur og doktor í miðaldafræðum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×