Viðskipti innlent

Deila Finnair og FL Group leyst

Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Flugleiða, tekur sæti í stjórn Finnair og Hannes Smárason, forstjóri FL Group, dregur framboð sitt til baka á aðalfundi Finnair í dag.
Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Flugleiða, tekur sæti í stjórn Finnair og Hannes Smárason, forstjóri FL Group, dregur framboð sitt til baka á aðalfundi Finnair í dag. Mynd/VIlhelm

Skorið hefur verið á hnútinn í deilu stjórnar Finnair og FL Group með þeim hætti að Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Flugleiða, tekur sæti í stjórninni. Hannes Smárason, forstjóri FL Group, dregur um leið til baka framboð sitt til stjórnar. Aðalfundur Finnair er í dag.

Finnska ríkið, stærsti eigandi Finnair, og stjórn flugfélagsins höfðu sett sig upp á móti stjórnarsetu Hannesar og tilnefnt átta menn í stjórn. Nú hafa verið gerðar breytingar á þeim lista og Sigurði bætt við.

Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, forstöðumanns upplýsingasviðs FL Group, var lögð áhersla á að leysa málið með farsælum hætti þannig að það kæmi félaginu sem best. Þannig fer Sigurður í raun ekki inn í stjórnina sem fulltrúi FL Group heldur fremur sem óháður fulltrúi allra hluthafa. Á þetta var lögð áhersla af hálfu finnska ríkisins og stjórnarinnar þar sem um almannahlutafélag væri að ræða.

„Við lögðum áherslu á að geta boðið Finnair ákveðna reynslu og þekkingu í alþjóðlegum flugrekstri og teljum því marki vel náð með því að Sigurður samþykkti að taka sæti í stjórninni. Svo teljum við um leið að það auki verðgildi hluta allra hluthafa að fá inn jafn reyndan mann úr þessum geira," segir Kristján.

FL Group fer með rúmlega 22,3 prósenta eignarhlut í Finnair og er næststærsti hluthafinn í félaginu. Um fimm prósent hlutarins eru bundin í framvirkum samningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×