Innlent

Varist að tala niður til fólks

Stjórnvöld og fyrirtæki í ferðaþjónustu sem vilja nota listsköpun í markaðsstarfi mega ekki reyna að stýra eða hafa áhrif á sköpun listamanna. Þetta segir Ólafur Elíasson myndlistarmaður sem talaði á ársfundi Útflutningsráðs í gær.

Listir og ímynd þjóðar var yfirskrift fundarins og miðlaði Ólafur fundarmönnum af margþættri reynslu sinni og störfum.

Ólafur sagði Ísland hafa mikla möguleika á sviði markaðssetningar en láta þyrfti af gamaldags auglýsingum þar sem fólki er „skipað“ að koma og sjá náttúru landsins.

Notaði hann auglýsingu 66° norður sem dæmi um vel heppnaða markaðssetningu en í henni væri skírskotað til náttúrunnar og fólki, án orða. Fólki sé boðið að koma og upplifa sjálft sig í íslensku umhverfi. Sem dæmi um illa heppnaða markaðssetningu benti Ólafur á auglýsingu flugfélags þar sem fólki var sagt að koma og sjá fegurð norðurljósanna. Þar væri talað niður til fólks.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, sagði á fundinum að forsenda fjölgunar ferðamanna til Íslands utan háannatíma væri markaðssetning lista og menningar. Nefndi hann hátíðirnar Food and Fun og Iceland Airwaves sem vel heppnuð dæmi um slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×