Innlent

Brotið gegn mannréttindum

Jón Gerald Sullenberger segir dómara brjóta gegn mannréttindum sínum með því að meina sér að sitja í réttarsal.
Jón Gerald Sullenberger segir dómara brjóta gegn mannréttindum sínum með því að meina sér að sitja í réttarsal. MYND/Brjánn

Jón Gerald Sullenberger, einn sakborninga í þeim þætti Baugsmálsins sem nú er til umfjöllunar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, segir að brotið sé gegn grundvallarmannréttindum sínum með því að meina sér að sitja í réttarsal á meðan teknar eru skýrslur af öðrum sakborningum í málinu.

Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds, lagði fram bókun við aðalmeðferð Baugsmálsins í héraðsdómi í gær þar sem fram kemur að Jón Gerald efist um hlutleysi dómsformannsins, þar sem dómarinn hafi á þriðjudag vikið honum úr dómsal án lagastoða, og hafi neitað að rökstyðja þá ákvörðun sína.

Í yfirlýsingu frá Jóni Gerald segir að dómarinn hafi vísað honum úr réttarsal með dónalegum hætti, og málsmeðferðin sé ranglát og óskiljanleg með öllu. Ákvörðun dómara sé efnislega röng, þar sem lög segi að sakborningar megi sitja aðalmeðferð nema undantekningar eigi við, sem sé ekki í þessu tilviki.

„Þegar litið er til alls þessa er skiljanlegt að ég dragi í efa óhlutdrægni dómsins í máli þessu eins og ég gerði þegar ég krafðist að dómsformaður viki sæti við meðferð þessa máls,“ segir í yfirlýsingu Jóns Geralds. Hann segir óskiljanlegt að sömu dómarar séu í málinu nú og í fyrri hluta Baugsmálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×