Körfubolti

Munu ekki skiptast á upplýsingum

Pétur Ingvarsson er búinn að þjálfa Hamars-menn síðan haustið 1998.
Pétur Ingvarsson er búinn að þjálfa Hamars-menn síðan haustið 1998. MYND/Valli

Þær skemmtilegu kringumstæður eru nú komnar upp að tveir bræður munu þjálfa á móti hvorum öðrum í bikarúrslitum karla í körfubolta í næsta mánuði.

„Það að komast í bikarúrslitaleikinn lyftir þessu upp á annað plan,“ segir Pétur Ingvarsson sem mætir yngri bróður sínum Jóni Arnari í Höllinni en báðir hafa þeir verið að ná frábærum árangri í vetur.

„Þeir eru búnir að rústa okkur tvisvar í vetur og við höfum ekki unnið þá síðan að ég veit ekki hvenær. Þetta eru ekki óskamótherjarnir fyrir okkur. Þetta er eina liðið sem við höfum spilað við síðan ég veit ekki hvenær sem hefur náð að keyra upp hraðann á móti okkur. Við réðum ekkert við þá,“ segir Pétur en Jón Arnar hefur náð að koma ÍR á mikið flug síðan að hann kom í Breiðholtið.

„Ég vissi það frá fyrstu mínútu að þessi hópur ætti að geta gert miklu betur. Þetta var spurning um hvort að við myndum fara vel af stað og ná fljótt upp sjálfstraustinu. Það gekk eftir og menn eru alltaf að átta sig betur og betur á hvað sé hægt að gera,“ segir Jón Arnar.

Jón Arnar hrósar bróður sínum fyrir frábært starf hans í Hveragerði. „Það er eins og það komi mönnum alltaf á óvart hvernig þeir standa sig þarna. Pétri tekst alltaf að vinna vel úr erfiðum stöðum. Hann er búinn að gera það ár eftir ár og ég held að menn verði bara að fara átta sig á því að hann er hörku þjálfari,“ segir Jón Arnar sem fær líka hrós frá bróður sínum.

„Hann er að gera frábæra hluti með ÍR-liðið og þeir eru með eitt best mannaða liðið á landinu eins og staðan er í dag. Mér sýnist að hann sé búinn að ná að kveikja í þeim,“ segir Pétur og bætir við.

„Ég er ekki með neina elítumenn upp til hópa í mínu liði og hann hefur úr fleiri slíkum mönnum að spila. Það sem einkennir þetta lið er þolinmæði og við getum kannski ekki gert neitt annað en að vera þolinmóðir,“ segir Pétur. Jón Arnar veit líka að Pétur hefur þegar farið með lið í bikarúrslitaleik en hann kom Hamar í Höllina 2001.

„Hann er reynslunni ríkari,“ segir Jón Arnar. Þeir bræður hafa báðir orðið bikarmeistarar en þeir voru í aðalhlutverki þegar Haukarnir unnu bikarinn 1996. Jón Arnar var þá með 11 stig í úrslitaleiknum en Pétur skoraði 8 stig.

„Við höfum algjörlega unnið fyrir því að spila í þessum úrslitaleik,“ sagði Jón Arnar en ÍR hefur lagt Íslandsmeistara Njarðvíkur, silfurlið Skallagríms og svo Grindavík á útivelli á leið sinni í Höllina. „Við höfum verið mjög heppnir og fengið heimaleiki allan tímann á meðan að þeir þurftu að vinna Grindavík á útivelli,“ segir Pétur.

Þeir bræður viðurkenna báðir að þeir ræði ekki íslenska boltann þessa daganna. „Við höfum rætt mikið um körfubolta en pössum okkur á að segja ekki neitt núna. Ég er með allt öðruvísi lið en hann og með allt aðrar áherslur. Ég held að við fylgjumst báðir það vel með að ég held að við vitum alveg jafn mikið um hvað hinir þjálfararnir eru að gera,“ segir Pétur og Jón Arnar er á sömu skoðun.

„Við tölum töluvert saman um körfubolta og höfum báðir mikinn almennan áhuga á körfubolta. Þegar við erum báðir að keppa á móti hvorum öðrum þá ræðum við minna um deildina hér heima,“ segir Jón og bætir við.

„Við höfum oft keppt á móti hvor öðrum þannig að það verður ekkert vandamál og bara gaman að fá að mæta honum. Þetta eru mjög ólík lið og það er ljóst að það er misjafnt hvað þjálfarnir eru að reyna að ná fram í leikjum þessarra liða. Við munum reyna að nota okkar styrkleika og þeir eru allt öðruvísi en hjá þeim,“ segir Jón Arnar og báðir búast þeir við flottum úrslitaleik.

„Þetta verður skemmtilegur leikur fyrir alla. Það hafa oft verið Suðurnesjalið í bikarúrslitunum og liðin í ár eru klárlega ekki þaðan,“ segir Pétur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×