Fótbolti

Genk vildi fá Veigar Pál fram á sumar

Veigar páll fagnar hér einu marka sinna með Stabæk í sumar.
Veigar páll fagnar hér einu marka sinna með Stabæk í sumar. MYND/Scanpix

Belgíska úrvalsdeildarliðið Genk setti sig fyrir helgi í samband við norska úrvalsdeildarliðið Stabæk með það fyrir augum að fá Veigar Pál Gunnarsson lánaðan til félagsins. Stabæk var aðeins tilbúið að lána Veigar til Belgíu í þrjá mánuði en ekki til loka tímabilsins eins og óskað var eftir. Útlit er því fyrir að ekkert verði af því að Veigar Páll fari til Belgíu, í bili að minnsta kosti.

„Þetta hefði verið spennandi kostur,“ sagði Veigar Páll við Fréttablaðið. „Sérstaklega að fá að spila alvöru fótbolta á undirbúningstímabilinu fyrir norska tímabilið. Það er þó vonandi að þeir fylgist með mér í sumar og séu opnir fyrir þeim möguleika að gera tilboð í mig því þetta er gott félag,“ sagði hann. Veigar Páll skrifaði í haust undir þriggja ára samning við Stabæk.

„Það hefði ekki gengið upp að fá hann í aðeins þrjá mánuði. Þá hefði hann misst af síðustu tíu leikjum tímabilsins,“ sagði Willy Reynders, einn forráðamanna Genk.

Veigar Páll var meðal markahæstu leikmanna norsku úrvalsdeildarinnar í sumar og var valinn í lið ársins af leikmönnum deildarinnar. Í sumar voru ýmis félög orðuð við hann en hann batt enda á þær vangaveltur er hann skrifaði undir nýjan samning við Stabæk.

Genk er sem stendur í efsta sæti belgísku úrvalsdeildarinnar með 40 stig eftir sautján leiki. Anderlecht fylgir fast á hæla þess með 37 stig en liðin eru í nokkrum sérflokki sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×