Innlent

Stefnir í óefni

Breska flugfélaginu British Airways hefur ekki verið tilkynnt um hugsanleg vandræði í flugstjórn á íslenska flugstjórnarsvæðinu eftir áramótin. Talsmaður flugfélagsins segir að röskun á áætlunum félagsins yrðu bagalegar fyrir félagið. Flugmálayfirvöld í Bretlandi segja að flugumferð verði beint suður fyrir flugstjórnarsvæði Íslands ef á þarf að halda.

Íslenska ríkið hefur að meðaltali tekjur af 150 til 500 flugum sem fara í gegnum íslenska lofthelgi á dag, en um 1.000 vélar fljúga yfir Norður-Atlantshafið daglega. Ef flugumferðarstjórar ráða sig ekki til starfa hjá Flugstoðum þá verður alþjóðlegri flugumferð yfir Norður-Atlantshafið beint í ríkara mæli suður fyrir íslenska svæðið.

Að sögn talsmanns British Airways býst félagið við vandræðum, en ekki hefur verið ákveðið til hvaða ráðstafana félagið mun grípa ef ekki leysist úr deilu flugumferðarstjóra við Flugstoðir.

Loftur Jóhannsson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir að breyting á flugleiðum hafi að öllu jöfnu í för með sér aukin fjárútlát fyrir flugfélög og þau geti jafnvel verið veruleg ef um er að ræða mikla lengingu á flugleiðinni. Flugstjórn í Bretlandi mun beina öllu Norður- Atlantshafsflugi suður fyrir íslenska flugstjórnarsvæðið, um flugstjórnarsvæði Kanadamanna.

Loftur segir stöðuna vegna ráðninga flugumferðastjóra til Flugstoða vera óbreytta svo nú lítur út fyrir að stefni í óefni fyrsta janúar, en talið er að lítil röskun verði á millilandaflugi Icelandair til og frá landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×