Viðskipti innlent

Vöruskiptahallinn tæpir 123 milljarðar

Vöruskipti voru óhagstæð um 13,5 milljarða krónur í nóvember, sem er 300 milljónum krónum meira en á sama tíma í fyrra, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Á fyrstu 11 mánuðum ársins voru vörur fluttar inn fyrir 335,6 milljarða krónur en út fyrir 213 milljarða og nemur heildarviðskiptahalli ársins 122,6 milljörðum króna sem er 27,9 milljörðum meiri halli en í fyrra.

Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar voru vörur fluttar út fyrir 19,8 milljarða krónur í nóvember en inn fyrir 33,2 milljarða krónur. Verðmæti vöruútflutnings á fyrstu 11 mánuðum ársins nam 12,2 milljörðum eða 6,1% meira á föstu gengi1 en á sama tíma í fyrra. Sjávarafurðir voru 54,3% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,8% meira en í fyrra. Útfluttar iðnaðarvörur voru 38,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 20,4% meira en á sama tíma árið áður, aðallega vegna hækkunar álverðs.

 

Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu 11 mánuði ársins nam 40,1 milljarði króna eða 13,6% meira en í fyrra. Rúman helmingur aukningarinnar eða 21,7 milljarða krónur má rekja til aukins innflutnings á fjárfestingarvöru sem jókst um 32,5%. Innflutningur hrá- og rekstrarvöru jókst um 25,9%, eða um 18,3 milljarða.

Þá leiddi verðhækkun á eldneyti og smurolíu til 11,2% aukningar, eða um 3,3 milljarða. Innflutningur neysluvöru, annarrar en mat- og drykkjarvöru, jókst um 6,7% eða 3,2 milljarða en 4,8% aukning varð í innflutningi á mat- og drykkjarvöru. Aftur á móti dróst innflutningur á flutningatækjum saman um 12,4%, eða um 7,4 milljarða, aðallega vegna minni flugvélainnflutnings en einnig varð samdráttur í innflutningi fólksbíla, að sögn Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×