Körfubolti

Brenton og Helena best hjá KKÍ

Brenton Birmingham hjá Njarðvík og Helena Sverrisdóttir hafa verið valin körfuboltamaður og körfuboltakona ársins 2006, en þetta var tilkynnt í morgun. Það er stjórn Körfuknattleikssambandsins sem stendur að valinu.

Á heimasíðu KKÍ segir að Brenton Birmingham hafi leikið mjög vel á árinu 2006. Hann var einn af betri leikmönnum Njarðvíkur sem urðu Íslandsmeistarar síðastliðið vor og var talinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Brenton gaf kost á sér í landsliðið sem tók þátt í Evrópukeppninni sl. sumar og haust, lék frábærlega og var talinn langbesti leikmaður íslenska landsliðsins. Brenton hefur einnig verið að leika vel með Njarðvík í fyrri hluta Íslandsmótsins og einnig lék hann mjög vel með sínum mönnum í Evrópukeppni félagsliða. Brenton hefur verið góð fyrirmynd yngri leikmanna innan sem utan vallar.

Helena Sverrisdóttir hefur undanfarin ár verið að skipa sér á meðal bestu leikmanna í efstu deild kvenna á Íslandi. Helena hefur verið valin körfuknattleikskona ársins sl. 2 tímabil af leikmönnum og þjálfurum 1. deildar kvenna. Á árinu 2006 urðu Haukar Íslandsmeistarar og Poweradebikarmeistarar. Helena lék lykilhlutverk með U-18 ára landsliði sem og A-landsliði sl. sumar og haust. Að auki lék Helena mjög vel með Haukum í Evrópukeppni félagsliða og er talin með efnilegri leikmönnum í Evrópu. Helena er frábær fyrirmynd fyrir allar ungar stúlkur jafnt utan sem innan vallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×