Enski boltinn

Ferguson ánægður með Saha

Louis Saha hefur spilað mjög fyrir með Man. Utd. í ár.
Louis Saha hefur spilað mjög fyrir með Man. Utd. í ár. MYND/Getty

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, telur að Louis Saha hafi fyllt skarðið sem Ruud van Nistelrooy skildi eftir í framlínu liðsins í sumar og gott betur. Saha hefur skorað átta mörk í þeim 15 leikjum sem hann hefur byrjað inn á í ár.

Nistelrooy, sem gekk í raðir Real Madrid í sumar, skoraði 150 mörk í 201 leik á sínum ferli hjá Man. Utd. og héldu margir að sóknarlína liðsins yrði bitlaus án Hollendingsins fljúgandi, sérstaklega í ljósi þess að ferill Saha hjá liðinu hafði verið meiðslum strjáður og hann hafi ekki náð sér á strik.

Tímabilið í ár hefur verið önnur saga og var Saha nýlega verðlaunaður með nýjum og endurbættum samningi við félagið.

"Við brottför Nistelrooy, auk þess sem Alan Smith og Ole Gunnar Solskjær hafa átt í meiðslum, var þetta mikil prófraun fyrir Saha. En hann hefur fyllilega staðist mínar væntingar og samstarf hans við Wayne Rooney hefur verið með afbrigðum gott," segir Ferguson.

"Tölfræði hans talar sínu máli. Hann skorar reglulega en vinnur auk þess mjög vel fyrir liðið, hann er öflugur í loftinu, er jafnvígur á báða fætur og sinnir varnarvinnunni vel. Hann býr yfir mörgum góðum kostum og við buðum honum nýjan samning vegna þess að við viljum halda þeim leikmönnum sem hafa þessa kosti. Við viljum alls ekki missa leikmenn á borð við Saha," sagði Ferguson jafnframt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×