Viðskipti innlent

Neytendur fá kartöflu í skóinn frá Seðlabankanum

Íslenskir neytendur hafa aldrei verið bjartýsnni en nú ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var í dag. Gildi vísitölunnar hækkaði um 17,3 prósent á milli mánaða og 8,5 prósent á milli ára og hefur aldrei verið hærri.

Greiningardeild Kaupþings segir í Hálffimmfréttum sínum í dag að Íslendingar hafa aldrei verið jafn bjartsýnni á núverandi stöðu mála í hagkerfinu né stöðuna sex mánuði fram í tímann en þar spila væntingar um heildartekjur heimilisins stórt hlutverk. Það komi ef til vill ekki á óvart enda sé talsvert um launahækkanir um áramótin auk þess sem verulega hefur dregið úr verðbólgu að undanförnu. Því megi búast við að kaupmáttur landans taki kipp á næstu mánuðum.

Þá mun lækkun matarskatts í mars á næsta ári einnig hafa jákvæð áhrif á heimilisbókhald landsmanna, að sögn greiningardeildar Kaupþings.

Deildin bendir hins vegar á að þessi mikla bjartsýni skjóti nokkuð skökku við á sama tíma og peningalegt aðhald Seðlabankans sé í hæstu hæðum og hagvöxtur hafi ekki mælst minni í þrjú ár samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Gefi Væntingavísitalan vísbendingu um þróun einkaneyslu á næstu misserum veitti íslenskum neytendum kannski ekki af kartöflu í skóinn frá Seðlabankanum í dag, að sögn greiningardeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×