Erlent

Samningur um varðskip undirritaður

Smíðasamningur um nýtt varðskip var undirritaður í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík í dag. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra telur að gjörbylting verði á skipakosti Landhelgisgæslunnar en ítrekar þó að nýja skipið sé ekki herskip.

Það ríkti sannkölluð hátíðarstemmning í Þjóðmenningarhúsinu í dag þegar íslenskir ráðamenn skrifuðu undir smíðasamninginn við stjórnendur chilesku skipasmíðastöðvarinnar ASMAR. Samningsverðið er tæpir 2,7 milljarðar króna og er búist við að smíðin taki hálft þriðja ár.

Varðskipið verður mun stærra, öflugra og betur búið en þau varðskip sem nú eru í rekstri. Ægir og Týr eru um 71 m á lengd og 10 á breidd og um 1.300 brúttótonn. Nýtt varðskip verður 93 m á lengd, 16 m á breidd og 4.000 brúttótonn. Togkraftur þess verður um 100 tonn miðað við um 56 tonna togkraft á Ægi og Tý. Geta Landhelgisgæslu Íslands til að bregðast við, þegar stór flutningaskip eiga í hlut margfaldast enda nauðsynlegt að varðskip geti aðstoðað og bjargað stórum togurum og flutningaskipum ef þörf krefst. Fjöldi í áhöfn nýja varðskipsins verður svipaður og á varðskipum gæslunnar.

Nýja skipið er vel tækjum búið, meðal annars tækjum til að gefa þyrlum eldsneyti á flugi og eins og í hinum skipum gæslunnar verða fallbyssur um borð.

Í ljósi þess hversu gamall núverandi skipakostur landhelgisgæslunnar er telur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra líklegt ráðist verði í smíði annars skips innan fárra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×