Erlent

Bush boðar stækkun heraflans

George Bush, forseti Bandaríkjanna, boðaði í dag stækkun herafla landsins en vildi ekki svara því hvort liðsstyrkurinn yrði nýttur í stríðinu í Írak.

Þetta kom fram í árlegu ávarpi forsetans fyrr í dag um það sem hann dró saman það helsta á árinu sem nú er að líða. Óhætt er að segja að ástandið í Írak hafi verið honum ofarlega í huga enda hefur sannkölluð vargöld ríkt þar stærstan hluta ársins. Hann dró engan dul á að árið 2006 hefði verið bæði íbúum Íraks og bandarískum hermönnum erfitt og frekari fórna væri að vænta á því næsta. Bush sagðist viss um að sigur myndi á endanum nást, en að þessu sinni vantaði talsvert upp á sannfæringarkraftinn.

Robert Gates, nýskipaður landvarnaráðherra er í sinni fyrstu heimsókn í Írak og kvaðst Bush búast við að hann yrði látinn útfæra stækkun heraflans. Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar vildi hann samt ekki svara því hvort hermönnum í Írak yrði fjölgað en deildar meiningar eru um gagnsemi þess. Forsetinn var svo inntur eftir viðbrögðum sínum við fréttum að lesbísk dóttir Dick Cheney varaforseta væri með barni. Hann kvaðst viss um að hún yrði góð móðir, en gæti sín um leið að víkja ekki einu orði að kynhneigð hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×