Innlent

Dæmdar bætur vegna gæsluvarðhalds

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að íslenska ríkið skyldi greiða karlmanni 250 þúsund krónur í miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti í byrjun árs 2005, en hæstiréttur vísaði gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum frá dómi.

Manninum var haustið 2004 gert að sæta nálgunarbanni gangvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður og unnusta hennar. Lögreglu bárust svo tvær kærur í nóvember og desember það ár um að hann hefði brotið gegn nálgunarbanninu og var því farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum vegna rannsóknar málsins 9. desember.

Þann 3. janúar 2005 rann sá gæsluvarðhaldsúrskurður út og fór þá lögregla fram á að maðurinn sætti áfram í gæsluvarðhaldi. Á það féllst héraðsdómur en Hæstiréttur vísaði úrskurðinum frá dómi 7. janúar.

Höfðaði maðurinn í kjölfarið mál og fór fram á þrjár milljónir króna í bætur þar sem hann hefði setið saklaus í fangelsi og jafnframt orðið fyrir atvinnutjóni.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að fullt tilefni hefði verið til að úrskurða manninn í gæsluvarðhald 9. desember en framlengingu gæsluvarðhaldsins hafi brostið lögmæt skilyrði þar sem máli vegna gæsluvarðhaldsúrskurðarins var vísað frá dómi. Var því fallist á að maðurinn ætti rétt á 250 þúsund krónum í miskabætur en ekki kröfur hans um bætur vegna atvinnutjóns enda hefðu engin gögn verið lögð fram henni til stuðnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×