Viðskipti innlent

Nýtt flugfélag á Akureyri

Norðanflug ehf., félag um fraktflug frá Akureyri til meginlands Evrópu, var stofnað á Akureyri í dag en hefur starfsemi næsta vor. Stofnendur eru Samherji hf., Hf. Eimskipafélag Íslands og SAGA Fjárfestingar ehf. Hlutafé er 50 milljónir króna.

Í tilkynningu segir að fjölmargir hagsmunaaðilar hafi lýst yfir áhuga á því að koma að verkefninu enda ljóst að mjög brýn þörf er fyrir beina fraktflutninga loftleiðina frá Akureyri.

Í stjórn félagsins sitja Unnar Jónsson, Samherja, Steingrímur Pétursson, ráðgjafi, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, frá SAGA Fjárfestingum. Félagið hefur sett sér skýr markmið og verður unnið að frekari undirbúningi starfseminnar á næstu vikum. Starfsemi félagsins verður kynnt ítarlega í febrúar á næsta ári.

Haft er eftir Unnari Jónssyni, forstöðumanni flutningasviðs Samherja, að mikill áhugi sé á verkefninu hjá fjölmörgum fyrirtækjum. „Markaðurinn fyrir ferskan fisk er mikill og vaxandi. Til marks um það má nefna að um 15 tonn af ferskum fiskflökum eru flutt daglega frá Eyjafjarðarsvæðinu. Það samsvarar einni þotu á dag. Það er því engin spurning að Norðanflug mun mæta brýnni þörf og mun væntanlega vera með ferðir 3-5 sinnum í viku að minnsta kosti,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×