Viðskipti innlent

Samruni SPV og SH samþykktur

Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt samruna Sparisjóðs vélstjóra, SPV og Sparisjóðs Hafnarfjarðar, SPH. Stofnfjáreigendur beggja sjóðanna  samþykktu samrunann  fyrir réttri viku. Ragnar Z. Guðjónsson og Magnús Ægir Magnússon, sparisjóðsstjórar sameinaðs sparisjóðs, segja að við sameininguna verði til „mjög öflugt fjármálafyrirtæki.“

Í tilkynningu frá Kauphöll Íslands er haft eftir Ragnari, að heildareign sameinaðs sparisjóðs nemi 100 milljörðum króna og eigið fé er um 11 milljörðum. Viðskiptavinirnir skipta tugum þúsunda að sögn Magnúsar Ægis. „Meira en 50.000 einstaklingar eiga í viðskiptum við sameinaðan sjóð og vel á þriðja þúsund fyrirtæki,“ segir hann.

Sameinaður sparisjóður mun kynna vörur sínar og þjónustu undir vörumerkjunum SPH, SPV og S24, auk vörumerkisins Sparisjóðurinn.

Sparisjóður vélstjóra, SPV, var stofnaður 11. nóvember 1961. Sparisjóður Hafnarfjarðar, SPH, var stofnaður 22. desember árið 1902 og S24, dótturfyrirtæki SPH, var sett á stofn þann 14. október 1999. Sameinaður sparisjóður starfrækir sjö útibú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×