Viðskipti innlent

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs 44,6 milljarðar

Hús Íbúðalánasjóðs.
Hús Íbúðalánasjóðs.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu 4,7 milljörðum króna í nóvember. Þar af voru um 600 milljónir króna til leiguíbúðalána. Almenn útlán sjóðsins námu því um 4,1 milljörðum króna sem er um 3% aukning á milli mánaða. Heildarútlán sjóðsins á árinu nema ríflega 44,6 milljörðum króna.

Í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að gera megi ráð fyrir að heildarútlán sjóðsins á árinu verði í efri mörkum útgáfuáætlunar.

Þá segir ennfremur að sparisjóðirnir hafi ákveðið að hækka lánshlutfall sitt til íbúðakaupa í 80% af kaupverði fasteigna. Hér er um að ræða svonefnd hattalán í lánasamstarfi Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna.

Íbúðakaupendur nýta sér fyrst hámarkslánshlutfall Íbúðalánsjóðs sem er 17 milljónir króna, en eiga síðan möguleika á láni frá sparisjóðunum til viðbótar. Í samstarfinu er alls boðið upp á lánshlutfall sem nemur 120% af brunabótamati að viðbættu lóðarmati eignar. Lánsfjárhæðin getur þó aldrei orðið hærri en 80% af kaupverði eignar og er hámarksupphæð samtals 27,1 milljón, að því er segir í mánaðarskýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×