Innlent

14 mánaða fangelsi fyrir amfetamínframleiðslu

MYND/GVA

Hæstiréttur staðfesti í dag 14 mánaða fangelsisdóm héraðsdóms yfir manni fyrir að hafa í félagi við annan mann framleitt amfetamín.

Hann var einnig sakfelldur fyrir vörslu á vökvum og efnum sem tengdust framleiðslunni og innihéldu amfetamín, metamfetamín og efnið P-2-NP. Þá var maðurinn einnig sakfelldur fyrir vörslu á rúmum 60 grömmum af amfetamíni, 193 amfetamíntöflum og loftskammbyssu á heimili sínu og fíkniefnum í bifreið sinni.

Hins vegar þótti ekki sannað að maðurinn hefði ætlað það amfetamín sem hann var sakfelldur fyrir framleiðslu á og því amfetamíni sem hann var sakfelldur fyrir vörslu á að öllu leyti til sölu.

Horft var til þess að um eindreginn brotavilja var að ræða og að um alvarleg brot var að ræða. Hins vegar var tekið tillit til þess að maðurinn játaði á sig brotin og sýndi lögreglu samstarfsvilja í tengslum við málið.

Þótti því til 14 mánaða fangelsisvist hæfileg refsing. Auk þess var bæði loftskammbyssan, fíkniefnin og efnin sem notuð voru til framleiðslu amfetamínsins gerð upptæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×