Innlent

Ógnaði starfsfólki með öxi

Karlmaður á fimmtugsaldri var í dag dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi, í Héraðsdómi Reykjaness, fyrir vopnað rán í lyfjaversluninni Apótekaranum. Fyrir viku var karlmaður á þrítugsaldri dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir vopnað rán í sama apótek.

Maðurinn réðst í maí á þessu ári inn í apótekið sem er við Smiðjuveg í Kópavogi. Hann ógnaði starfsfólki með öxi og heimtaði að fá lyfin contalgin og rítalin. Maðurinn hafði á brott með sér lyf að andvirði rúmlega hundrað og sjötíuþúsund krónur.

Maðurinn játaði brot sín og kvaðst hafa verið í miklu morfínfráhvarfi þegar hann framdi ránið. Hann notaði hluta lyfjanna sjálfur en mundi ekki fyrir dómi hvort hann hefði selt eitthvað af þeim. Maðurinn hefur leitað sér aðstoðar vegna fíkniefnavanda.

Hann rauf skilorð með broti sínu en árið 2005 var hann dæmdur fyrir skjalafals. Maðurinn á langan brotaferil að baki og hefur hlotið á annan tug dóma bæði hér á landi og í Svíþjóð. Hann hefur meðal annars hlotið dóma fyrir fíkniefnabrot og þjófnað.

Dómurinn segir brotin alvarleg þar sem maðurinn hafi verið vopnaður hættulegri öxi og ógnað starfsfólki með henni. Dómurinn metur bæði játningu mannsins og viðleitni hans til að vinna bug á fíkniefnavanda sínum en með hliðsjón af sakaferli mannsins og alvarleika brotanna þótti ekki koma til greina að skilorðsbinda brotin og var maðurinn dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi.

Fyrir viku var karlmaður á þrítugsaldri dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir ræna sama apótek með búrhníf.

Fyrir viku var karlmaður á þrítugsaldri dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir vopnað rán í sama apóteki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×