Erlent

Segist vilja slíðra sverðin

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segist reiðubúinn til viðræðna við Palestínumenn um lausn fanga og endalok hernáms heimastjórnarsvæðanna. Leiðtogar Hamas-samtakanna taka þessari útréttu sáttahönd með varúð.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs undanfarna mánuði hefur ekki gefið mikið tilefni til bjartsýni um að friður sé í nánd. Vopnahléið sem samþykkt var í gær og útspil Ehud Olmerts í dag hafa glætt vonir um að kannski sé ekki öll nótt úti. Í ræðu sinni í Beersheva kvaðst Olmert reiðubúinn til opinskárra og heiðarlegra viðræðna við Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar um lausn palestínskra fanga, lokun landnemabyggða og loks stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna í samræmi við svonefndan vegvísi til friðar, gegn því að palestínskir skæruliðar hætti árásum sínum og ísraelska hermanninum Gilad Shalit verði sleppt úr haldi en handtaka hans á Gazaströndinni í sumar leiddi til víðtæks hernaðar þar. Viðbrögð Hamas-samtakanna, sem hafa töglin og hagldirnar í palestínsku heimastjórninni, hafa verið blendin. Talsmaður þeirra sagði ekkert að marka tilboð Olmert þar sem engra útfærslna væri þar getið. Til merkis um að kálið væri ekki sopið þótt í ausuna væri komið var eldflaugum skotið yfir landamærin á Gaza að ísraelskum bæjum og tveir Palestínumenn féllu á Vesturbakkanum fyrir kúlum ísraleskra hermanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×