Fótbolti

Cannavaro þakkar landsliðinu og Juventus

Cannavaro kyssir verðlaunagripinn eftirsótta
Cannavaro kyssir verðlaunagripinn eftirsótta AFP

Ítalska landsliðið og Juventus voru Fabio Cannavaro ofarlega í huga í kvöld þegar hann tók við Gullknettinum, sem er viðurkenning sem afhent er knattspyrnumanni ársins að mati franska tímaritsins France Football. Cannavaro tileinkaði hluta verðlaunanna heimaborg sinni Napoli.

"Ég fer auðvitað með verðlaunin til Madrid, en ég viðurkenni að ég hefði gjarnan viljað fara með þau til Tórínó líka," sagði leikmaðurinn sem gekk í raðir Real Madrid frá Juventus í sumar.

"Ég átti frábært tímabil hjá Juventus á síðustu leiktíð, en þetta er líka viðurkenning til okkar allra í ítalska landsliðinu. Ég vil því fyrst og fremst þakka félögum mínum hjá Juve og ítalska landsliðinu við þetta tilefni," sagði varnarmaðurinn knái, en þó hafa staðið nokkrar deilur vegna valsins að þessu sinni.

"Ég myndi líka vilja sýna verðlaunagripinn á götum Napoli, af því þar ólst ég upp og spilaði knattspyrnu á götunum þegar ég var pjakkur. Það væri gaman að sína börnunum á götum Napoli verðlaunin, því mörg þeirra eiga um sárt að binda," sagði Cannavaro, en viðurkenndi að hann ætti langt í land með að velta goði Napolibúa af stalli - Diego Maradona.

"Diego á sérstakan sess í hjörtum Napolibúa og þó ég sé stoltur fyrir hönd heimaborgar minnar að fá þessi verðlaun nú - veit ég að ég er ekki einu sinni nefndur í sömu andrá og Maradona þar á bæ," sagði Cannavaro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×